25.7.2007 | 16:01
Bruni og bit.
Halló! Nú er maður sko búinn að stinga tánum í Saharasand! Fórum til Fuerteventura í 2 vikur og það var svona allt í lagi. Þótt ég hafi nú ekki pantað þetta íbúðahótel sérstaklega fyrir líkamsræktaraðstöðu þá þóttist minn egtemand ætla að fara á morgnana og skokka aðeins og svona eins og maður gerir á þessum stöðum en nei þegar við hittum fólk sem bókaði sig sérstaklega þarna vegna líkamsræktaraðstöðu kom í ljós að "salurinn" var lítið herbergi og "tæki" voru 2 göngubretti sem bæði voru biluð Miklar sandöldur myndast þarna vegna sandfoks frá Sahara og fórum við upp á eina ölduna og fannst þetta mjög merkilegt, tókum fullt af myndum og auðvitað voru teknar myndir af gimsteinunum fyrir jólakortin en margar myndanna voru grettumyndir því sandurinn fauk framan í þau
Við fórum einn daginn á markað og dóttir mín með sítt ljóst hár var áfjáð í að láta flétta hárið, ekki málið, prúttaði við eina dömuna þarna, sem var frá Senegal, og unglingsstúlka tók svo til við klukkustundarvinnuna að flétta allt hárið. Eftir ca 20 mín þegar nokkrar konur af fléttuhópnum hafði malað á fullu og gjóað á mig augunum kom ein daman til mín og spurði hvort ég vildi ekki fá "hálfa" fléttur, þ.e. flétta helminginn af hárinu. Nei nei sagði ég rólega voða fullorðinsleg. Jú sagði hún af ákafa, þetta (sagði hún um leið og hún klappaði mér á kollinn) þetta er alveg ómögulegt, hitt verður þó skárra!! Ég voða vandræðaleg lagaði hárspöngina mína og fannst ég allt í einu eins og fuglahræða. Jújú fléttaði mig bara sagði ég góð með mig. Kemur hún þá ekki með þennan litla tjaldstól!! Sit, Sit sagði hún. Ég horfði á stólinn svo konuna og aftur á stólinn. Mér varð svo um að ég missti út úr mér: But my ass is so big!! (ekki mjög kvenlegt eða dannað)Það hnussaði heldur betur í kellu, NO NO look my ass is bigger og svo hlammaði hún sér á stólinn! Ég náttúrulega hlýddi og settist og svo byrjaði hún að skipta þessu litla hári sem ég hef í allskonar tögl og OMG ég leit örugglega út eins og reytt hæna. En hún fléttaði, skrapp og spjallaði við vinkonurnar, kom aftur og fléttaði, reyndi að prútta við viðskiptavini um belti, veski og sólgleraugu og rölti í burtu á meðan og alltaf sat ég þarna eins og búddalíkneski á slæmum hárdegi! En svo kláraði hún og tilkynnti hátíðlega að það væri nú bara allt annað að sjá mig! og ættbálkur hennar þarna samsinnti henni, much better! Svo gengum við mæðgur nýfléttaðar heim á leið og fundum út á leiðinni að gott væri að bera sólarvörn á hársvörðinn.
Ég tók upp á því að fá svona heiftarlega í kviðarholið og þurfti á læknishjálp að halda, þar var nú bara rabbað við mig á spænsku og smábland af ensku, ég náði einu og einu orði og sagði Si þegar mér fannst það viðeigandi en svo gekk þetta yfir og auðvitað var vel smurt á reikninginn fyrir þennan "skrýtna útlending". Um heilsugæsluna hljóp hundur, maðurinn minn lenti í því að binda bindishnút fyrir pabba eins læknisins því hann var að fara í veislu og notaði aldrei bindi og starfsfólkið þarna "gúgglaði" hvernig á að binda hnút og fann ekki. Við vorum nú að vona að við fengum 10% afslátt fyrir bindishnútinn en svo var ekki. En þessi læknisheimsókn varð til þess að við vorum úti við seint að kvöldi og bara tvö
Það var dálítið athyglisvert að spánverjum virðist þykja alveg rosalega gaman að tala saman. Maður beið á meðan kassadömurnar töluðu saman á milli vöruinnslátta, á meðan afgreiðslufólk á skyndibitastað átti í einhverjum innilegum samræðum, á meðan sjúkraflutningamennirnir ákváðu hvernig best væri að flytja þessa móðursjúku hænu, eiginlega við öll miðakaup þá voru alltaf 2-3 manneskjur þarna og spjölluðu á ljóshraða með miklu handapati.
Svo var ung fjölskylda við hliðina á okkur í íbúð með ömmu greinilega, því hún var alltaf með barnið og tuktaði það til líka, hún tók sig til og spjallaði við okkur um mál augnabliksins sem voru að dóttir mín átti að leika við barnabarnið hennar, hversu gamall eða hvað sonur minn yngri heiti (hef ekki hugmynd hvað hún sagði ég sagði bara alltaf Magnus Magnus)og svo tók hún sig til og hélt mikla ræðu við manninn minn sem grunar að hún hafi verið að hneykslast á tónleikum kvöldsins áður sem stóð til kl 7 um morguninn, það eina sem hann skyldi voru puttarnir sem hún hélt uppi og svo var hún svo reið. Hann bara kinkaði kolli. Henni hefur örugglega fundist hann mjög góður hlustandi.
MJJ var alveg hissa þegar hann hitti fólk frá Íslandi, tala þau íslensku?! Á einum veitingastaðnum þóttist þjónn ætla að stela af honum leikfangakörlum, MJJ fannst þetta sko ekkert fyndið og bað mig að fela dótið. Svo fannst honum tauservíettan svo flott svona eins og bátur í laginu og hvíslaði við borðið, þetta er alveg eins og bátur. Þá sagði Helena hátt og skýrt, Magnús þeir skilja ekki íslensku þú mátt alveg tala. Þá hvíslaði hann bara aðeins hærra: Þetta er eins og bátur.
MJJ fór í klippingu úti og var svo alvörugefinn allan tímann að starfsfólk kom til að horfa á hann!!
Jón slapp ekki hikstalaust frekar en ég. Hann gleymdi sér í sólinni og skaðbrann á fótleggjum, bringunni, yfir magann, ökklinn stokkbólgnaði og til að bæta gráu ofan á svart þá héldu moskítóflugur að hann væri hlaðborð og réðust á hann nótt eftir nótt þrátt fyrir að hafa úðað yfir sig eitri til að halda þeim fjarri! Nú gengur hann um brunninn og bitinn og svo á leiðinni heim í flugvélinni hellti hann yfir sig brennheitu kaffi og það skvettist á örverpið sem tilkynnti á hátíðnistyrk: Ég er BRENNDUR!!!! Ég náttúrulega hvessti augun á föðurinn sem sat og kvaldist undan kaffinu í kjöltu sinni og mér var nákvæmlega sama! Það fóru dropar á legg drengsins og ætlaði hann að kvarta! Drengurinn endurtók þetta aftur á háum styrk ÉG ER BRENNDUR en svo kom í ljós að dropinn sem datt á hann hafði ekki ollið skaða en aftur á móti sat maðurinn minn sem ég lofaði að vera með í gegnum súrt og sætt með brennda útlimi, margbitinn og kaffibrenndur og ég með engan móðurlegan tón í röddinni: Þú og þitt kaffi!
jæja best að setja í þvottavél nr 3, reyna að komast að því hvaða vibbalykt þetta er í ísskápnum og taka út fisk.
Lifið heil.
Athugasemdir
Ég held að Grænland ætti að verða næst ferð hjá ykkur.
Nema þá gæti það orðið snóbruni en ekki sólbruni. he he.
Bless kæra systa.
Sigþr. (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 20:48
Þetta er oft svona með ykkur systurnar, það má ekkert gerast fyrir örverpið þá er himinn og jörð að farast, á meðan börn eins og ég Helena gleymumst og ekki einu sinni kysst á meiddið þó annar fótleggurinn myndi hverfa í skelfilegu þyrluslysi.
Sindri Njáll (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.