Færsluflokkur: Bloggar
27.4.2008 | 22:53
spænt í hringi
Sæl! Örverpið mitt hefur verið með magakveisu núna í tæpa viku og tvisvar kastað upp. Í fyrra skiptið vöknuðum við lætin en ég vissi nákvæmlega hvar fatan var og hún var notuð. Nokkrum dögum seinna var hann enn að kvarta um í maganum svo ég hafði varann á mér, en láðist að hafa fötuna tilbúna.
Ég sit róleg inni í stofu þegar ég heyri skrýtið hljóð koma frá honum, ég stekk eins og hind inn í herbergi og sé minn vera að byrja ballið. Ég snarsný mér á punktinum á 2 tám og rýk af stað inn í þvottahús!! Engin fata, engin fata, ENGIN FATA!!!! Hvar er helv..... fatan, þetta tók ca 6 sek og ég vissi að á þessum 6 sekúndum væri rúmið mitt orðinn einn ælupollur með lítinn gutta í miðjunni. Ég nánast flýg inn í eldhús og leita að skál en hafði í einhverri tiltektarvímu breytt staðsetningu skálarinnar og á meðan ég rifjaði upp hvar ég hafði sett hana blótaði ég breytingaræði mínu. Fann skálina og ca 10 sek frá því ég lagði af stað í þetta ferðalag og kem inn þá er minn bara ælandi hægri vinstri í allar áttir svo ég skutlaði mér (næstum því) yfir rúmið og stóð síðan með poppskálina undir gusunum og breytti um stefnu eftir því hvert hann snéri sér, svo var hann alveg búinn og skellti sér niður og ældi einu sinni enn!! Eftir stóð ég, skjálfandi af áreynslu, með ælu í rúminu, á drengnum, á gólfinu, bókahillunni, náttborðinu og svo auðvitað skálinni, alveg brjáluð í Jón fyrir að vera sofandi inni í stofu en á meðan á gusunum stóð kallaði ég nafnið hans margsinnis, með hækkandi tónstyrk og föðurnafni bætt við kröftuglega. Greyið kom svefndrukkinn inn í rafmagnað og útælt andrúmsloft og hófst strax handa við að henda púðum og taka sængurföt af :)
Jæja vona að ykkur sé ekki bumbult af þessari ljúfu færslu
Eigið góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2008 | 08:34
Ferming og fitubrennsla
Nú gat ég bara ekki verið löt lengur að skrifa hérna!! Sko mín fór bara í búð í Smáralindinni að ná í buxur úr styttingu. Allt í góðu með það. Þar sem ég labba að kassanum sé ég útundan mér eitthvað voða fallegt bleikt sem benti til að ætti að vera fermingjagjafir fyrir stúlku. Ok ég næ í buxurnar ofsalega glöð og trítla svo að þessu bleika. Þetta voru fitumælar, gönguteljarar, orkuteygjubönd eða eitthvað svoleiðis og ég veit ekki hvað og hvað!!! Ég meina er þetta ekki einum of, kallar þetta bara ekki á einhverja vitleysu ef maður er farinn að láta fermingabörn pæla í fituprósentunni í sér og fyrir utan það að þau fáu börn sem þjást af offitu þau vita alveg af því (og eru ekki að leika sér að því)að fituprósentan er ekki á réttum stað hjá þeim. Veit ekki með ykkur en mér blöskrar.
Annars er það markverða að frétta að litla örverpið mitt er að missa tennur! Já, tvær tennur dottnar niðri :)
Ó mæ godd, verð að segja ykkur voðalega trist sögu af mér: Sko ég var búin að tjá mig um að vera kölluð amma þegar ég sótti bróðurson minn, að ég væri kona á þessum aldri og þyrfti að pæla í beinþéttni, nú hefur bæst við GLÁKUSKOÐUN!! Já kæru landsmenn ég fór til augnlæknis því mér fannst ég eitthvað sjá verr og varð á að segja um leið og ég sá augnlækninn að mér þætti ég eitthvað svo gömul í augunum. "Yfirleitt glákuskoða ég fólk eftir fertugt en fyrst þú ert hérna....." jájá, ég bara í kúk og kanil yfir hvað ég sé orðin ellileg. Síðan hitti ég mína yndislegu mágkonu sem verður ekki á jólakortalistanum í ár því hún horfir á mig með þessi saklausu dádýrsaugum og spyr:"Voru komnar pappírsbleiur þegar þú áttir fyrst?" Ég horfði á hana, reyndi að fela drápseðlið, og sagði rólega en kalt: Já og það var líka búið að finna upp hjólið... smá þögn svo rak hún upp hlátur þegar hún uppgötvaði hvernig þetta kom út, ég hló ekki.
Kannski er það líka merki um að aldurinn færist yfir þegar maður hættir að telja í mánuðum og árum sambandsárin sín og telur í tugum!!
Hafið góðar stundir og ánægð í eigin skinni
hm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 02:40
Ætla að taka jólin með stæl
Sæl og blessuð, þar sem ég var ekkert sérstaklega upplífgandi í síðustu færslu þá kem ég með planið mitt.
Ég ætla að kaupa tilbúið deig frá Jóa Fel og familian gerir þetta saman. semja jólakortalistann og senda nokkru velvöldu fólki kort.
Þannig að kortin og kökurnar eru frá. Jólagjafir á leiðinni. svo allt er undir control.
Annars var ég gjörsamlega dolfallin yfir sjónvarpsþætti áðan á 2sirkus, Most shocking heitir þátturinn, ég komst aldrei inn í eldhús því ég stóð upp, horfandi á skjáinn, jesúaði mig jiiiiiaði mikið og allt á innsogin tók 2 skref og sat svo bara með hökuna í fanginu allan þáttinn.
Er með leiðinlega kvefpest og skapið eftir því. Um daginn langaði t.d. sérstaklega til að komast i tæri við þá vísindamenn sem segja að fyrirtíðaspenna sé ekki til!!!!!!! Eru þeir með leg? Tútna þeir út vegna eggloss, hormónaójafnvæginu og blæðinga? Og svo annað, af hverju í //&%$ (blót) getur f'olk ekki notað stefnuljós? eða biðjast afsökunar ef það rekst utan í mann og af hverju borgarðu skatt allt þitt líf og endar svo á að borga erfðafjárskatt EFTIR að þú deyrð?!!
Jæja best að fara að sofa og ef engan skyldi gruna það þá er ég skólabókardæmi fyrir PMS núna yfirleitt er ég hvers manns hugljúfi
Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 18:09
aahhhh.........búin að skúra
Já halló!! Mín búin að vera frekar steikt undanfarnar vikur og ekki haft staf til að segja.
Reyndar er það þannig þegar ég er í "botnvörpu" dalnum þá er ég langt niðri, skef botninn og skil sjálfa mig eftir í sárum og er alveg geld í skrifum mínum.
Það er alveg ömurlegt að vera með þunglyndi, það er svo rohosalega leeeiiðinlegt. Tala ekki um ef maður skreytir það svo með ofsakvíða þá erum við sko í feitum málum. Þunglyndið er svo leiðinlegt að það hefur þynnst ansi í vinahópnum. Maður er sjálfur svo stútfullur af fordómum gagnvart sjálfum sér að fordómar "vina" er eiginlega bara piss.
En ég ætlaði nú ekki að eyða þessari færslu í eitthvert væl því viti menn, ég skúraði!! Þegar ég er í "botnvörpunni" þá hef ég ekki orku í neitt - það er svo skrýtið, ég hélt aldrei að andlegt mein gæti gert mann rúmliggjandi en það gerist. Maður er gjörsamlega 300 tonn að þyngd (OMG ég er aftur farin að blaðra)
Ok - hmmmmm hvað á ég að skrifa um. Pabbi búinn að koma sér ágætlega fyrir, er orðinn Reygíggingur. JA vill endilega láta hann kaupa sér rafmagnshjólastól og ég sé hann fyrir mér með Miami Vice sólgleraugu á ofsahraða í Hátúninu og grýlukerti í andlitinu.
Yngri sonur okkar, 5 ára, var að horfa á mannvitsbrekkuna Johnny Bravo að dansa. "Mamma, þegar ég verð orðinn pabbi þá ætla ég að dansa svona" og svo tók hann nokkur spor eins og teiknifígúran. Nú, hvað ætlarðu að eiga mörg börn? Hmmmmm, baraaaa 6. Vá sex stykki og hvað eiga þau að heita? Fura, Kormákur, Helena og Róbert (bara fjórir puttar komnir upp) Æ ég ætla bara að eiga fjögur. Og hvernig komast börnin út úr mömmunum? Hann uppveðraðist allur, reif upp um sig og sagði: " Sko, sjúkralæknirinn RÍFUR magann á mömmunni og tekur barnið út!" Og svo var þetta ekki rætt meir.
Jæja, lasagnað er að vera tilbúið. Verið í stuði með guði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 21:32
Janet Jackson og ég.
Hæ hæ! Það var myndband í tv áðan með janet jackson söngkonu. Yngri sonur minn, tæplega 5 ára, horfði í aðdáun á þessa fögru veru og sagði svo: Ég vil eiga þessa mömmu! ............ooog líka þig. Nú segi ég, er ég lík henni (alltaf að halda í vonina) Svarið kom skjótt: Nei.
Ef MJJ bregður þá kemur alltaf sami frasinn: Vá! Mér brá mér!
Einn morguninn lágum við upp í rúmi, hjónin (undarlegt en satt) og yngsta trippið. Feðgarnir voru að spjalla þegar allt í einu gellur í örverpinu: Þú ert með hár í nefinu! Já segir pabbinn. Þá bætti MJJ við: Fólk er með hár í nefinu en krakkar með hor! Útrætt mál.
Það eru 2 gelgjur hérna á heimilinu og ástandið eftir því. Stundum þegar fýla/hormónagos/drami er í gangi þá hef ég stundum sagt: Hvaða attitude er þetta? og dóttir mín náði ekki alveg orðinu og skellti á bróður sinn þennan eldri: Vááá! (sagt með tilheyrandi fýlutón unglingsins)einn með arkitekt (svo skyldi hún ekkert í hlátrasköllunum)
Jæja þar kom að því. Það var minnst á beinþynningu við mig! Ég er víst komin á "þennan aldur" ótrúlegt, mér fannst alltaf svo rosalega langt þangað til ég færi á "þennan aldur"! en þjálfarinn minn spurði hvort ég tæki kalk því það væri svo gott fyrir konur á mínum aldri :)
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.8.2007 | 19:36
dráp og deplar
HÆ! Ok, lá í sæluvímu í sófanum eftir mikið puð. Sé ég þá ekki STÓRA könguló trítla glöð í bragði undan öðrum sófanum með þessar lööööngu fætur og úakkk búk. Svo ég tók bara upp skál og kramdi hana, þurfti 3 högg svo fæturnir hættu að hreyfast.
Nú! Eftir þetta dráp fékk ég smásamviskubit um hvort þetta hafi verið fjölskyldukönguló, kannski skyldi hún eftir 25 börn undir sófanum!! En það er of seint núna.
Svo var ég eitthvað að stússast í svefnherberginu þegar "fljúgandi könguló" stökk veggja á milli en þarna var komin hrossafluga. Ég bakkaði hægt út, náði í pappír til að kremja hana (gamalt veiðigen í yfirvinnu í dag)læddist svo inn og MJJ tók eftir þessu og náði í kodda og fleygði í áttina til hennar, eða reyndar bara upp í loft, en ég sá að vegna smæðar minnar eða hárrar lofthæðar hér þá náði ég ekki í fluguna með pappírnum svo ég tók fallegt sjal og "Indiana Jones - aði" hana, svona eins og með svipu. Neibb, hún flaug eða hoppaði frekar um alla veggi og svo sá ég hana ekki meira. Ok lét þetta duga að sinni en svo fór ég að sjá flugur birtast við hliðina á mér og svo þegar ég leit þangað þá voru þær horfnar, svo birtust þær aftur og hurfu aftur. Eftir mikið augnaflökt uppgötvaði ég að þessar "flugur" voru svörtu deplarnir sem eru á sjónhimnunni minni :) Ég er algjör lúði.
MJJ er skárri í andlitinu en hann datt úr rólu og beint á andlitið og er allur beyglaður í framan, svo gekk hann á hurð og datt svo aftur í dag. Hann var klipptur úti og voða fínn og sett gel í hann þar og honum fannst það geggjað flott. Þannig í morgun sagði hann áður en hann fór í leikskólann: Mamma, ég vil fá gler í hárið! (gler = gel)
Hafið það gott um helgina og farið varlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2007 | 16:01
Bruni og bit.
Halló! Nú er maður sko búinn að stinga tánum í Saharasand! Fórum til Fuerteventura í 2 vikur og það var svona allt í lagi. Þótt ég hafi nú ekki pantað þetta íbúðahótel sérstaklega fyrir líkamsræktaraðstöðu þá þóttist minn egtemand ætla að fara á morgnana og skokka aðeins og svona eins og maður gerir á þessum stöðum en nei þegar við hittum fólk sem bókaði sig sérstaklega þarna vegna líkamsræktaraðstöðu kom í ljós að "salurinn" var lítið herbergi og "tæki" voru 2 göngubretti sem bæði voru biluð Miklar sandöldur myndast þarna vegna sandfoks frá Sahara og fórum við upp á eina ölduna og fannst þetta mjög merkilegt, tókum fullt af myndum og auðvitað voru teknar myndir af gimsteinunum fyrir jólakortin en margar myndanna voru grettumyndir því sandurinn fauk framan í þau
Við fórum einn daginn á markað og dóttir mín með sítt ljóst hár var áfjáð í að láta flétta hárið, ekki málið, prúttaði við eina dömuna þarna, sem var frá Senegal, og unglingsstúlka tók svo til við klukkustundarvinnuna að flétta allt hárið. Eftir ca 20 mín þegar nokkrar konur af fléttuhópnum hafði malað á fullu og gjóað á mig augunum kom ein daman til mín og spurði hvort ég vildi ekki fá "hálfa" fléttur, þ.e. flétta helminginn af hárinu. Nei nei sagði ég rólega voða fullorðinsleg. Jú sagði hún af ákafa, þetta (sagði hún um leið og hún klappaði mér á kollinn) þetta er alveg ómögulegt, hitt verður þó skárra!! Ég voða vandræðaleg lagaði hárspöngina mína og fannst ég allt í einu eins og fuglahræða. Jújú fléttaði mig bara sagði ég góð með mig. Kemur hún þá ekki með þennan litla tjaldstól!! Sit, Sit sagði hún. Ég horfði á stólinn svo konuna og aftur á stólinn. Mér varð svo um að ég missti út úr mér: But my ass is so big!! (ekki mjög kvenlegt eða dannað)Það hnussaði heldur betur í kellu, NO NO look my ass is bigger og svo hlammaði hún sér á stólinn! Ég náttúrulega hlýddi og settist og svo byrjaði hún að skipta þessu litla hári sem ég hef í allskonar tögl og OMG ég leit örugglega út eins og reytt hæna. En hún fléttaði, skrapp og spjallaði við vinkonurnar, kom aftur og fléttaði, reyndi að prútta við viðskiptavini um belti, veski og sólgleraugu og rölti í burtu á meðan og alltaf sat ég þarna eins og búddalíkneski á slæmum hárdegi! En svo kláraði hún og tilkynnti hátíðlega að það væri nú bara allt annað að sjá mig! og ættbálkur hennar þarna samsinnti henni, much better! Svo gengum við mæðgur nýfléttaðar heim á leið og fundum út á leiðinni að gott væri að bera sólarvörn á hársvörðinn.
Ég tók upp á því að fá svona heiftarlega í kviðarholið og þurfti á læknishjálp að halda, þar var nú bara rabbað við mig á spænsku og smábland af ensku, ég náði einu og einu orði og sagði Si þegar mér fannst það viðeigandi en svo gekk þetta yfir og auðvitað var vel smurt á reikninginn fyrir þennan "skrýtna útlending". Um heilsugæsluna hljóp hundur, maðurinn minn lenti í því að binda bindishnút fyrir pabba eins læknisins því hann var að fara í veislu og notaði aldrei bindi og starfsfólkið þarna "gúgglaði" hvernig á að binda hnút og fann ekki. Við vorum nú að vona að við fengum 10% afslátt fyrir bindishnútinn en svo var ekki. En þessi læknisheimsókn varð til þess að við vorum úti við seint að kvöldi og bara tvö
Það var dálítið athyglisvert að spánverjum virðist þykja alveg rosalega gaman að tala saman. Maður beið á meðan kassadömurnar töluðu saman á milli vöruinnslátta, á meðan afgreiðslufólk á skyndibitastað átti í einhverjum innilegum samræðum, á meðan sjúkraflutningamennirnir ákváðu hvernig best væri að flytja þessa móðursjúku hænu, eiginlega við öll miðakaup þá voru alltaf 2-3 manneskjur þarna og spjölluðu á ljóshraða með miklu handapati.
Svo var ung fjölskylda við hliðina á okkur í íbúð með ömmu greinilega, því hún var alltaf með barnið og tuktaði það til líka, hún tók sig til og spjallaði við okkur um mál augnabliksins sem voru að dóttir mín átti að leika við barnabarnið hennar, hversu gamall eða hvað sonur minn yngri heiti (hef ekki hugmynd hvað hún sagði ég sagði bara alltaf Magnus Magnus)og svo tók hún sig til og hélt mikla ræðu við manninn minn sem grunar að hún hafi verið að hneykslast á tónleikum kvöldsins áður sem stóð til kl 7 um morguninn, það eina sem hann skyldi voru puttarnir sem hún hélt uppi og svo var hún svo reið. Hann bara kinkaði kolli. Henni hefur örugglega fundist hann mjög góður hlustandi.
MJJ var alveg hissa þegar hann hitti fólk frá Íslandi, tala þau íslensku?! Á einum veitingastaðnum þóttist þjónn ætla að stela af honum leikfangakörlum, MJJ fannst þetta sko ekkert fyndið og bað mig að fela dótið. Svo fannst honum tauservíettan svo flott svona eins og bátur í laginu og hvíslaði við borðið, þetta er alveg eins og bátur. Þá sagði Helena hátt og skýrt, Magnús þeir skilja ekki íslensku þú mátt alveg tala. Þá hvíslaði hann bara aðeins hærra: Þetta er eins og bátur.
MJJ fór í klippingu úti og var svo alvörugefinn allan tímann að starfsfólk kom til að horfa á hann!!
Jón slapp ekki hikstalaust frekar en ég. Hann gleymdi sér í sólinni og skaðbrann á fótleggjum, bringunni, yfir magann, ökklinn stokkbólgnaði og til að bæta gráu ofan á svart þá héldu moskítóflugur að hann væri hlaðborð og réðust á hann nótt eftir nótt þrátt fyrir að hafa úðað yfir sig eitri til að halda þeim fjarri! Nú gengur hann um brunninn og bitinn og svo á leiðinni heim í flugvélinni hellti hann yfir sig brennheitu kaffi og það skvettist á örverpið sem tilkynnti á hátíðnistyrk: Ég er BRENNDUR!!!! Ég náttúrulega hvessti augun á föðurinn sem sat og kvaldist undan kaffinu í kjöltu sinni og mér var nákvæmlega sama! Það fóru dropar á legg drengsins og ætlaði hann að kvarta! Drengurinn endurtók þetta aftur á háum styrk ÉG ER BRENNDUR en svo kom í ljós að dropinn sem datt á hann hafði ekki ollið skaða en aftur á móti sat maðurinn minn sem ég lofaði að vera með í gegnum súrt og sætt með brennda útlimi, margbitinn og kaffibrenndur og ég með engan móðurlegan tón í röddinni: Þú og þitt kaffi!
jæja best að setja í þvottavél nr 3, reyna að komast að því hvaða vibbalykt þetta er í ísskápnum og taka út fisk.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2007 | 21:49
ertu amma hans eða mamma?
Jæja nú er málið að flikka aðeins upp á sig. Ég fór galvösk að sækja bróðurson minn vopnuð 2/3 af börnum mínum svo frændi minn mundi nú örugglega ekki mótmæla því aftur að koma heim með mér en nei minn tók sig til og gjörsamlega háháhágrét og velti sér í moldinni og orgaði nei nei ég vil mömmu! Ég reyndi að lokka hann með því að bjóða honum að heimsækja langömmu sem er 99 ára, tárin hættu að renna í 3 sekúndur en svo sá hann að hann mundi ekkert græða á því að heilsa upp á gömlu svo hann byrjaði bara aftur að gráta. Svo þegar ég var að fara með bílstólinn hans út í bíl, gengur að mér "stór strákur" og spyr mig hvern ertu að sækja? ég svara því. Núú, ertu amma hans eða mamma? (Í annað sinn sem ég er spurð hvort ég sé amma drengsins!!Í fyrra skiptið á fæðingardeildinni!!) Nei bara frænka sagði ég hundfúl við barnið.
Í gær tók ég eftir kúlu á enni yngsta gimsteinsins míns og spurði hvað hefði gerst. MJJ: Æ bara hún Andrea hún sparkaði í mig... Ha! hváði ég af hverju? Æ bara en veistu mamma ég og Hlynur við ELSKUM Andreu! Nú er hún sæt. Jahá :) og svo brosti hann undurblítt.
Ég er heimavinnandi þessa dagana og yngri sonur minn hefur mikinn áhuga á þessu: Ertu ekki að vinna mamma? Nei. Ertu í fríi? Já eiginlega. Ertu alltaf í fríi? Já. Snéri sér að KÓ: Mamma mín er ALLTAF í fríi.
Ok bóndinn kominn heim, hafið það gott
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2007 | 17:49
gjörsamlega tóm
Halló öll! Eftir mikið suð, tuð og ábendingar ákvað ég að opna bloggsíðu. En viti menn, ég varð gjörsamlega tóm! Mér fannst ég ekkert hafa að segja, fannst ekkert sniðugt sem ég hafði að segja eða gáfulegt. Verður að vera gáfulegt hugsaði ég og horfði síðan á loftviftuna fara hring eftir hring og lokaði svo tölvunni. Nú sit ég sem sagt hér og hef ákveðið að þetta verður ekki eitt af þessum gáfumannabloggum; heldur bara um hitt og þetta og aðallega mig :) og bíð eftir þætti í sjónvarpinu sem er óótrúlega fyndinn, TOP GEAR. Ég tók nefnilega vélfræðslu í 9.bekk sem valfag (held ég hafi nú bara náð fyrir miskunn M.Sig)því finnst mér ég afskaplega flott þegar ég skellihlæ (maður flissar ekki yfir bílaþáttum)með félögum mínum í Top Gear.
Ég get svo ..................... mér dettur bara ekkert í hug, er reyndar með smá áhyggjur hvort ég þurfi að beila bróður minn út á Ak. en hann var þar um helgina en hann er nú svo pollrólegur þannig að ég held ekki, en ágætt að velta þessum möguleika fyrir sér.
Jæja ég verð bara að skrifa eitthvað seinna. Hafið það rosalega gott elskurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)